Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Áfallasvigrúm, takk!

Í guðanna bænum, viltu gefa þjóðinni áfallasvigrúm.

Þú mátt ekki opna munninn án þess að verða að athlægi (og taka okkur með í leiðinni), eða vekja grunsemdir um óreiðu, illvilja og úlfúð annarra þjóða.

Ég ætlast til þess að ofan á allar hörmungarnar undanfarið, sért þú ekki að bæta á þær með óábyrgu blaðri! Ég þarf að fá lebensraum til þess að vinna mig út úr skítahaugnum - ekki kæfa okkur í skítnum sem vellur upp úr þér. Plís.  


mbl.is Viðtalið tekið úr samhengi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vargöld

Ég lifi á vargöld, í falskri veröld. Það eru 14 vikur frá hruni og nokkrar staðreyndir blasa við: Ég og við sem erum þjóðin eigum að borga milljarðaskuldir fjárglæframanna og þjófa. Við eigum að borga, en megum ekki kjósa upp á nýtt, þótt ekki væri til annars en að losna við þá gegnsýrðu spillingu sem nú er komin upp á yfirborðið í allri stjórnsýslunni.
Svo ég lifi í falskri veröld, haganlega gerðri fölsun, þar sem göturnar heita það sama og þær gerðu og enn er sama fólk við völd og í því sem gaf sig út fyrir að vera réttarríki, en er það ekki. Sá grundvöllur sem þjóðin taldi sig standa á reyndist botnlaust kviksyndi. Heimsmyndin var reist á skammarlegu óréttlæti. Og nú á að bæta á það. Unglingar eru handjárnaðir á Austurvelli. Piparúða sprautað í augu tíu ára krakka. Fimm prósent íbúa Árborgar verða handteknir vegna skulda. Innan árs verður stærstur hluti almennings eignalaus auk þess að skulda ríki og fjármálastofnunum það sem út af stendur eftir nauðungaruppboð á íbúðarhúsnæði. Stjórnvöld eru ekki staðföst nema í einu: Stórfelldum lífskjaraskerðingum og höfnun á því að koma með úrræði til bjargar heimilunum. Þau bjóða hausverkjapillu þegar blæðir úr slagæð. Þeim hefur ævinlega lánast að halda okkur við árarnar á þjóðargaleiðunni og telja víst að svo verði einnig nú – að kannski föttum við ekki, við sem erum þjóðin, að landinu var stolið frá okkur. Þau treysta á, að við sem erum þjóðin séum háð því að vera hérna, í baslinu, spillingunni og valdníðslunni. En því ekki að ganga eins langt og plankinn leyfir, sérstaklega þegar menn hafa vanið þjóð sína á það að til stjórnvalda megi ekki gera minnstu kröfur, siðferðislegar eða aðrar. Stjórnvöld vita að þau eru einungis að vinna fyrir sjálf sig, skara eld að eigin köku, þau álíta bara að þú vitir það ekki, já þú, sem ert þjóðin. Enda miðar eina viðleitnin sem stjórnvöld sýna að því, að þú uppgötvir ekki þessa staðreynd. Þau lifa heldur ekki í vellystingum áfram án okkar sem erum þjóðin. Stjórnvöld ætla að þvinga þjóðina til þess að skipta við sig og sjálf að ráða öllum skilmálum, vegna þess að þau halda að við sem erum þjóðin eigum engra kosta völ. Það er þar sem þau flaska á því. Því nú rís þjóðin úr sinni andlegu öskustó og hættir að krefjast breytinga – hún knýr þær fram. Hún stendur með sjálfri sér í stað þess að trúa því sem vellur upp úr þeim sem hagsmuni hafa af því að láta okkur borga skuldir óreiðumanna, en hindra að misferli þeirra verði rannsakað; þeirra sem finnst svo sem í lagi að við mótmælum, en segja okkur að við megum samt alls ekki kjósa.
Látum ekki úrræðaleysi stjórnvalda né eigin þrælslund segja okkur fyrir verkum lengur. Það er deginum ljósara að ráðherrar og aðrir sem eitthvað hefðu getað gert til að gera Ísland að betra landi ætla ekki að gera neitt, ekkert nema hefta og skerða, allt og alla nema sjálfa sig. Þjóðfélagið er helsjúkt af spillingu, en við sem erum þjóðin erum það ekki. Við eigum nú um tvennt að velja: Endurreisn með algjörlega nýju fólki í öllum valdastöðum stjórnsýslunnar – eða bregðast væntingum stjórnvalda og fara af Þrælaeyjunni sem fyrst – fara til frambúðar.


mbl.is Þjóðin var í Alþingisgarðinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjálpum þeim!

Getum við hjálpað þeim persónulega?
Getum við tekið að okkur þessi fjögur munaðarlausu börn sem sagt var frá í kvöld? Fjögur smábörn sem sátu í fjóra daga við hlið mæðra sinna látinna.
Ég veit að fjögur börn eru dropi í hafið, en það væri byrjun.
Þau gætu öðlast þolanlegt líf hérna, sem þau geta ekki heima hjá sér.
Hvað er hægt að gera fyrir þau?
Við getum ekki setið hjá og horft á þau skotin í tætlur líkams- og sálarlega.
Ef við tökum þessi fjögur börn að okkur, koma aðrar þjóðir á eftir.
Einhvers staðar verðum við að byrja að sinna okkar smæstu bræðrum.
mbl.is Neyðarsöfnun fyrir Gaza
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað er að?

Hvað er að, þegar þjóð er ögrað til þess að mótmæla stjórn ógnar og aðgerðaleysis?
Hvað er að þegar fólk sér enga aðra leið en að flýja land?
Hvað er að þegar milljónafólkið hunsar allar kröfur samfélagsins?
Hvað er að þegar stjórnarvöld ætla að halda áfram að segja þjóðinni
að hrunið komi ekki þeim við sem voru að fá reikninginn?
Og hvað er að, þegar svona krakkar eru beitt hryðjuverkalöggjöf - af löggunni í eigin fokking landi!
Eftir að vinsæll þáttur boðaði samspillingarformenn Íslands til þess að halda framboðsræður, niðri á Austurvelli! Var ekkert hægt að finna fáfarnari stað?
Mikið er ég stolt af ykkur, ykkur sem börðu gluggana utan og kölluðu: Lýðræði, ekkert kjaftæði!
Þið eruð þjóðin.
Guð varðveiti Ísland.


mbl.is Gas Gas Gas á gamlársdag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um að gera!

Já, endilega senda bara DG og Ingibjörgu í aðra ímyndarherferð, til þess að ,,endurbyggja efnahagslíf sitt, ímynd og trúverðugleika Íslands í viðskiptum um Evrópu og heim allan."

Það verður þeim létt verk og löðurmannlegt - ef einhver vogar sér að vera með gagnrýnisraddir, taka þau bara Sigurð Einarsson með sér aftur, til þess að segja þeim hinum sama að hann sé asni og fífl - aftur.

Það er nefnilega gersamlega ástæðulaust að endurbyggja sömu ímynd og trúverðugleika í heimalandinu, hvað þá efnahagslífið þar, því allir vita að bankarnir og ríkið eiga okkur, börnin okkar og barnabörnin og allar okkar unaðslegu vinnustundir - og hvað sem við þrælum, sökkvum við bara dýpra í dýið.


mbl.is Markaðsvirði íslensks hlutabréfamarkaðar hríðfellur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að fara eða vera

Það verður mikil eftirsjá að hverjum þeim sem flýgur utan og eru - hvort sem þeir vita það eða ekki - að fara alfarnir.
Annars vegar veit ég að allt verður ennþá erfiðara fyrir okkur sem heima sitjum -
hins vegar skil ég þá vel og styð þá í sinni ákvörðun.
Lítum fyrst á kosti þess að búa á Norðurlöndum:
Það er hægt að lifa af einni vinnu, jafnvel þótt hún sé á kassa eða við skúringar.
Allar heimsóknir til heimilislækna eru ókeypis.
Skólabækur eru ókeypis, upp allan menntaskólann.
Þú veist á hvaða kjörum þú tekur fasteignalánið þitt.
Og þú býrð við stöðugan gjaldmiðil.
Þessi listi er ekki tæmandi.
Svo ókostir: Þú býrð ekki á Íslandi lengur og þar eru fjölskyldan og einhverjir vinanna.
Þú missir af erfiðu uppbyggingarferli næstu áratugina.
Þú nærð ekki að upplifa mennta-, heilbrigðis- og velferðarkerfi verða ennþá lélegra en nú er.
Börnin þín munu ekki alast upp við veruleika þrælsins.

Leggjum nú kosti og ókosti á vogarskálarnar.
Þá virðast skúringar á Norðurlöndum og 35 tíma vinnuvikan þar allt í einu ekkert svo fráleit.
Því það er búið að veðsetja allt okkar og okkur öll til andskotans.


mbl.is Íslendingar stefna til Noregs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rúnar í þremur orðum:

Elsku Maja - þú skilur bezt allra að að þekkja hann var að elska hann.

Hér er hann í þremur orðum, eins og ég sá hann:

'ROCK N' ROLL' Ageless infinite cool  Soulful, romantic, real 

Simply the best!

 Crazy sexy cool Soulful, warm, happy!  The ultimate cool  The absolute best  The original rebel  No words needed  Imitated, never duplicated  The original pirate  Heart and soul What rock is… Yum, yum, yum!  Mother's worst nightmare...  Gracious heart + soul  Shy boyish charm Definition of cool He smiles sweetly 

 


mbl.is Rúnar Júlíusson látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðasti Geirfuglinn

TEGUND Í ÚTRÝMINGARHÆTTU

 

Geir!

mig langar svo að tala við þig

segja þér hvernig mér líður

vonandi er ég ekki að trufla

ertu upptekinn þessa dagana?

 

Geir,

ég er þegn í landinu

sem þú ræður eða réðst?

geturðu sagt mér, Geir

hvað verður um landið mitt?

mér finnst svo óþægilegt að vita það ekki

 

Geir, þú þekkir mig ekkert,

við höfum einu sinni sést, (hef líka séð Jón Ásgeir einu sinni)

ég hef alltaf verið dugleg að vinna

ég vann í humri

ég menntaði mig

keypti íbúðir (eina í einu)

átti börn og buru

breytti og bætti

fór – og kom aftur

til þín

 

Geir, í fimm vikur

hef ég séð sektarkenndina naga þig

ég veit hvernig tilfinning það er að hafa brugðist

og langa til að fela sig

skríða ofan í holu

bara ef gólfið opnaðist…?

 

En Geir minn

ég get því miður ekki hjálpað þér núna

og borgað fyrir geimið sem ég tók ekki þátt í

og ég er svo fegin að þú ætlar ekki að persónugera vandann,

þá þarf mín persóna bara ekkert að koma inn í þetta.

 

Því ég verð að fara frá þér núna, Geir,

þetta gengur ekki á milli okkar lengur

þú ert farinn að haga þér af fullkomnu ábyrgðarleysi

með peningana mína

framtíðarhag barnanna,

ertu búinn að veðsetja þau?

 

Öll börnin okkar, Geir?!

 

Ég skil vel að þú viljir ekki missa vinnuna, Geir

hver vill það?

Var það til að halda vinnunni að þú skortseldir börnin okkar?

Ertu að segja að ég eigi að borga þér launin þín

aftur

þann fyrsta desember?

 

Af hverju ertu að hlæja?

 

Ég veit alveg, Geir

að það verður í lagi með mig

en Geir,

hvað með alla hina

hvað með börnin?!

 

Þetta lán (í óláni)

sem þú ert alltaf að segja að komi eftir helgi,

hver á að borga það?

Er það nokkuð ég?

Ha, Geir, ha?

 

Þá er ég ekki til í að þú takir það.

 

Þú kannt ekkert með peninga að fara.

Þú veist það, Geir.

Í hvað eiga þessir peningar – sem þú ætlar að taka í mínu nafni - að fara?

 

Til að afskrifa lán fyrir Jón Ásgeir?

Kaupþing … ertu ekki að jóka í mér?

Og borga fyrir kosningabaráttuna þína í vor?

 

Ertu orðinn brjálaður maður?

 

Svona, Geir minn, manstu þegar Davíð varð borgarstjóri

svo forsætisráðherra, alveg eins og þú…

seðlabankastjóri

þá voruð þið svo oft saman

þá var gaman, ha?

 

Geir,

ég vona að þjóðin gefi þér upp sakir

en ég verð að drífa mig núna

þú skilur,

 

ég jafna mig á þér

og ég myndi hjálpa þér að borga, Geir

með einu skilyrði

að þú værir að sýna merki um að taka þig á

sýna að við værum saman í þessu

en það eru liðnar fimm vikur

og ég er ekki til í það lengur

ekki eftir að þú seldir börnin okkar, Geir

ekki eftir að þú neitar að segja mér hvað þú ætlar að gera við ólánið, Geir,

góða nótt

 

Innblásið af ljóði Höllu Gunnarsdóttur til Björgólfs G.,

Reykjavík, 9. nóvember 2008,  

Þórdís Bachmann


Hvers vegna eru Íslendingar í miklu lakari stöðu?

Ein (afskaplega nærtæk) skýring gæti verið þessi, sem birtist á Silfri Egils í gær:

,,Samkvæmt þeim fjölmörgu blaðamönnum og sérfræðingum sem hafa komið til Íslands eru skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um lánveitingu til Íslands mjög skýr: að núverandi ríkistjórn segi af sér og kosið verði um nýja."

Þarna væri komin skýring á þessum endalausa drætti og þeim skyndilega manndómi sem virtist glitta í hjá GHH í gær, þegar hann kvaðst allt í einu ekki ætla að láta kúga sig!

Og um leið skýring á því hvers vegna Ungverjar og Úkraínumenn eru komnir fram fyrir okkur í röðina og búnir að fá sín lán samþykkt - og afgreidd- hjá IMF.


mbl.is Lán tefst eitthvað áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Geir Hilmar að mannast?

Á maður að þora að trúa því, svona korteri fyrir þjóðarmorð, að leiðtoginn síljúgandi sé eitthvað að sjá að sér? Að hann hafi skyndilega fundið hjá sér manndóm? Það er nokkuð seint, ef satt er.

Tveir-þriðju þeirra sem ég þekki, eru búnir að panta gám fyrir búslóðina. Þetta er sérhæft fólk, sem er komið með vinnu í öðrum löndum. Það ætlar ekki að koma aftur, sama hvað.


mbl.is Við hættum frekar við lánið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband