Vargöld

Ég lifi á vargöld, í falskri veröld. Það eru 14 vikur frá hruni og nokkrar staðreyndir blasa við: Ég og við sem erum þjóðin eigum að borga milljarðaskuldir fjárglæframanna og þjófa. Við eigum að borga, en megum ekki kjósa upp á nýtt, þótt ekki væri til annars en að losna við þá gegnsýrðu spillingu sem nú er komin upp á yfirborðið í allri stjórnsýslunni.
Svo ég lifi í falskri veröld, haganlega gerðri fölsun, þar sem göturnar heita það sama og þær gerðu og enn er sama fólk við völd og í því sem gaf sig út fyrir að vera réttarríki, en er það ekki. Sá grundvöllur sem þjóðin taldi sig standa á reyndist botnlaust kviksyndi. Heimsmyndin var reist á skammarlegu óréttlæti. Og nú á að bæta á það. Unglingar eru handjárnaðir á Austurvelli. Piparúða sprautað í augu tíu ára krakka. Fimm prósent íbúa Árborgar verða handteknir vegna skulda. Innan árs verður stærstur hluti almennings eignalaus auk þess að skulda ríki og fjármálastofnunum það sem út af stendur eftir nauðungaruppboð á íbúðarhúsnæði. Stjórnvöld eru ekki staðföst nema í einu: Stórfelldum lífskjaraskerðingum og höfnun á því að koma með úrræði til bjargar heimilunum. Þau bjóða hausverkjapillu þegar blæðir úr slagæð. Þeim hefur ævinlega lánast að halda okkur við árarnar á þjóðargaleiðunni og telja víst að svo verði einnig nú – að kannski föttum við ekki, við sem erum þjóðin, að landinu var stolið frá okkur. Þau treysta á, að við sem erum þjóðin séum háð því að vera hérna, í baslinu, spillingunni og valdníðslunni. En því ekki að ganga eins langt og plankinn leyfir, sérstaklega þegar menn hafa vanið þjóð sína á það að til stjórnvalda megi ekki gera minnstu kröfur, siðferðislegar eða aðrar. Stjórnvöld vita að þau eru einungis að vinna fyrir sjálf sig, skara eld að eigin köku, þau álíta bara að þú vitir það ekki, já þú, sem ert þjóðin. Enda miðar eina viðleitnin sem stjórnvöld sýna að því, að þú uppgötvir ekki þessa staðreynd. Þau lifa heldur ekki í vellystingum áfram án okkar sem erum þjóðin. Stjórnvöld ætla að þvinga þjóðina til þess að skipta við sig og sjálf að ráða öllum skilmálum, vegna þess að þau halda að við sem erum þjóðin eigum engra kosta völ. Það er þar sem þau flaska á því. Því nú rís þjóðin úr sinni andlegu öskustó og hættir að krefjast breytinga – hún knýr þær fram. Hún stendur með sjálfri sér í stað þess að trúa því sem vellur upp úr þeim sem hagsmuni hafa af því að láta okkur borga skuldir óreiðumanna, en hindra að misferli þeirra verði rannsakað; þeirra sem finnst svo sem í lagi að við mótmælum, en segja okkur að við megum samt alls ekki kjósa.
Látum ekki úrræðaleysi stjórnvalda né eigin þrælslund segja okkur fyrir verkum lengur. Það er deginum ljósara að ráðherrar og aðrir sem eitthvað hefðu getað gert til að gera Ísland að betra landi ætla ekki að gera neitt, ekkert nema hefta og skerða, allt og alla nema sjálfa sig. Þjóðfélagið er helsjúkt af spillingu, en við sem erum þjóðin erum það ekki. Við eigum nú um tvennt að velja: Endurreisn með algjörlega nýju fólki í öllum valdastöðum stjórnsýslunnar – eða bregðast væntingum stjórnvalda og fara af Þrælaeyjunni sem fyrst – fara til frambúðar.


mbl.is Þjóðin var í Alþingisgarðinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband