Færsluflokkur: Kvikmyndir

Martha og Ernest Hemingway

Martha Gellhorn er líklega mesti kvenkyns stríðsfréttamaður sem um getur. Hún hitti Ernest Hemingway á knæpu (hvar annars?) á Key West og fór síðan með honum og John Dos Passos til Spánar, beint í borgarastyrjöldina.
Nú hefur HBO gert mynd um tíma skötuhjúanna saman, með Nicole Kidman sem Mörthu Gellhorn og Clive Owen sem Hemingway.
Myndin fær misjafna dóma, en ég sé margt til að hrífast af, fyrir utan leik Nicole, sem er framúrskarandi.
Til dæmis er gaman að sjá Robert Capa ljósmyndarann fræga, líkamnast á skjánum og segja við Mörthu, þegar hún dáist að myndum hans:
Það er ekki nóg að hafa hæfileika, maður þarf líka að vera Ungverji. (!)
Þetta er mynd um Mörthu, miklu frekar en um Ernest, þótt við sjáum ýmsar hliðar hans og flestar miður geðfelldar.
Ernest ætlar í rússneska rúllettu við Rússa sem býður Mörthu upp. Þeir eru báðir jafn klikkaðir og hætta ekki við þetta fyrr en þeim er boðinn vodki - sem síðasta staupið.
Ernest ræðst á (bókstaflega) gagnrýnanda, sem hafði opinberlega dregið karlmennsku Hemingways í efa, en honum var greinilega afskaplega mikið í mun að sanna karlmennsku sína - svo mjög að eflaust vekur það grunsemdir fræðimanna á karlmennskusviðinu.
Myndin er löng, 2 og 1/2 tími og stuðst er við fréttir og tökur þeirra tíma.
Ég mæli með henni, sérstaklega til að horfa á heima, því maður þarf aðeins að geta staðið upp án þess að trufla heila sætaröð af poppkornshöfum.

Bíó eftir bókinni

Hef verið að horfa á sex glænýjar myndir eftir bókum Lizu Marklund:
Arfur Nóbels, Stúdíó Sex, Villibirta (Prime Time), Lífstíð, Úlfurinn rauði og Þar sem sólin skín
Annika Bengtzon er leikin af Malin Crépin.
Erik Johanson leikur Patrik og er nákvæmlega jafn óþolandi og í bókunum.
Ellen Jelinek leikur Ninu Hoffmann í Lífstíð, mjög í Noomi Rapace-anda. Mögnuð lokasenan þar sem hinar löggurnar ganga út af kaffistofunni eftir að hún, sem kjaftaði frá, kemur aftur í vinnuna.
Í sömu mynd leikur Jonas Malmsjö Christer Bure, top cop með lík í lestinni (bókstaflega talað). Jonas minnir á mjög myndarlegan nazista í útliti og öllu sínu æði.
Ég er hrifnust af Lífstíð og Þar sem sólin skín. Arfur Nóbels og Villibirta (Prime Time) fá jöfn stig. Stúdíó Sex og Úlfurinn rauði reka lestina.
Var hrædd um að geta enga fílað nema Helenu Bergström sem Anniku, en Malin er algerlega með þetta.
Og mikið ofboðslega er fallegt í Svíþjóð annars, hvort sem er í borg eða sveit.
Framleiðendur eru sömu og að Millennium-seríunni og Daninn Peter Flinth leikstýrir bæði Þar sem sólin skín og Arfi Nóbels. Klippingin í Þar sem sólin skín er meiriháttar - aðallega eru þetta þó frábærar myndir fyrir þá sem fíla krimma-, löggu- og lausnamyndir - og svo vitanlega alla sem hafa lesið bækurnar.

Inhale eftir Baltasar Kormák

Var að sjá þessa frábæru mynd.

Hún hefur allt til að bera - góðan leik og leikara, þétt handrit með pólitískri ádeilu og innbyggðum harmleik - og spennandi senur sem fá mann fram á brún á sætinu.

Mæli með henni.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband