Sjáanlegur samdráttur í DK

Í Danmörku er nýbuið að segja upp allt að 10% hjúkrunarfólks hvers spítala.

Í þeim sveitarfélögum sem verst standa er verið að segja upp grunnskólakennurum.

Í Danmörku er líka nýkomin út spá sem segir að kreppubotni verði ekki náð fyrr en 2012.

Var ekki Steingrímur að segja að við kæmumst upp úr okkar forarpytt í lok þessa árs?

Annað hvort er Steingrímur að fegra ástandið eða Danir að sverta það all verulega. 


mbl.is Meiri samdráttur í Finnlandi og Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kúkur í dollu

Fyrir viku var verið að deila um í Danmörku hvort menningarráðherrann mætti hafa skoðanir.
Margir kollegar hans sögðu nei takk, ómögulega, ekki ráðherra með skoðanir hér.
Sem ráðherra á maður að viðhafa "armslængde".
Er það nú ekki mögnuð stefna, svona út af fyrir sig?
Á okkar landi viðhafa ráðherrar 10 foot pole-lengdina - eins og í: I wouldn´t touch it with a 10 foot pole.
Það væri anzi langur armur, rúmlega 3 metrar.
Þeir hafa allir alltaf verið að æfa lögreglukórinn það árið.

Per Stig Möller, fv. utanríkisráðherra, núv. menningarráðherra Danmerkur,
leyfði sér að lýsa opinberlega þeirri skoðun sinni, að kúkur í dollu
(listaverkið: Merde d´artiste, eftir Piero Manzoni frá 1961) væri ekki list.
Og síst af öllu list sem hann myndi vilji styðja fjárhagslega.
Samkvæmt dönskum miðlum setti þessi tjáningarútrás ráðherrans ,,sindene i kog“.
Menn sjá við hvers lags vanda verið er að glíma, þegar ráðherrar hafa tíma í svona.
Hvort kúkur í dollu sé list eða ekki?

Fyrir viku var verið að deila um á Íslandi hvort þjóðin, (sem heldur uppi gillinu),
mætti kjósa um hag sinn.
Þann rétt var reynt að hafa af fólki með öllum brögðum og engum vönduðum.
Rembst við að svíkja það loforð.
Eins og öll hin, án þess að blikna.

Hressandi tilbreyting samt, að nú er þetta daylight robbery og búið að vera í hálft annað ár.
Ræningjarnir eru ekki einu sinni með grímur.
Við vitum hverjir þeir eru og við vitum að þeir sitja ekki dag af sér, enginn þeirra.

Svo vandi okkar gengur eiginlega út á:

3. Þorum við að hanga með þessa framkvæmdastjórn öllu lengur?
Sem styður skjaldborg um auðrónana? Er ekki fullreynt?

2. Hvað tekur við ef við látum þau fara?
Þorum við að skrifa nýja stjórnarskrá - eftir fólkið og fyrir fólkið?

1. Þorum við að segja: Hingað og ekki lengra?

Því ef við þorum því ekki, er þetta tilgangslaust.
Ísland læknast ekki af sjálfu sér.
Það er enginn til þess að koma því til bjargar nema við.

Hvernig líf viljum við?
Nægir okkur kannski bara kúkur í dollu?

 


Nýr þjóðsöngur?

Það er verið að leggja til þetta lag sem nýjan þjóðsöng:

http://www.youtube.com/watch?v=4PYIbUaBnag

Kann ekki að setja myndbandið sjálft inn - afsakið það.

Hins vegar tek ég næstum heilshugar undir uppástunguna, finnst textinn viðeigandi og miklu meiri rythmi í laginu en gamla þjóðsöngnum, sem er nánast ómgerningur að syngja.

Geta flottu söngvararnir okkar ekki æft þetta og mætt á Austurvöll með atriðið næst þegar erlendir blaðamenn eiga leið hjá? *

* Þetta er ekki kaldhæni, ég meina það.


Frestur er á illu beztur

Ég myndi heldur ekki þora að staðfesta Icesave-lögin í dag, miðað við stemninguna í samfélaginu, miðað við að í kvöld er mesta drykkjukvöld ársins og það á fullu tungli og miðað við óvinsældir bæði flutningsmanna frumvarpsins og forsetans sjálfs.

Þetta er miklu sniðugri aðferð og þjóðlegri, svona í anda Þorgeirs Ljósvetningagoða, sem þó líka gafst upp fyrir "yfirvaldinu" eftir sína yfirlegu. Með þessum fresti sem forseti var svo kænn að kaupa sér, vinnst tími til að nota nýársávarpið í að réttlæta sig og sína - þótt einungis örfáir munu kaupa þann hvítþvott. Og vitanlega frestur til að láta skrifa einhverja mærðarútskýringu, þar sem orðin "alþjóðasamfélagið" og "axla ábyrgð" - að ógleymdum "horfa fram á veginn" munu koma fyrir.


mbl.is Forseti tekur sér frest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glötuð auglýsing Mogga

Var að sjá sjónvarpsauglýsingu frá Mogganum.
Hún gengur út á að maður fletti bara Fréttablaðinu en taki sér tíma í að lesa Moggann. Nenni kannski að fara með hann á klósettið?
Stíll skilaboðanna, sem minnti á ameríska kosningaherferð - svo og linmælt og ísmeygileg rödd þular, (sem sagði mér að hann ætti að vera í Slytherin), gerði mig fyrst abbó út í hæfileikalausu auglýsingastofuna með réttu ímyndina, sem bjó til þessa hörmung fyrir ærið fé.
Sú hugsun vék þó fljótt, þegar ég fattaði svarið við:
Hvernig átti auglýsingin að enda?
Jú, það var svona:
My name is Richard Milhouse Nixon and I endorse this commercial!

SVONA GERA MENN EKKI

Jónas Freydal, eigandi Draugaferða í Reykjavík íhugar nú alvarlega hvort ferðir hans í Kirkjugarðinn við Suðurgötu verði lagðar af vegna gagnrýni Þórs Magnússonar, sem segir Draugaferðir selja aðgang að lygasögu um hálfsystur sína.
Þótt Jónas Freydal íhugi að leggja ferðirnar niður, hyggst hann þó fara í mál við Þór vegna greinar Þórs um málið. Væntanlega þá vegna þess að hann hafi ákveðið að leggja ferðirnar niður?
Málsatvik eru fólki kunn; en lýsingin á skemmtigöngunni er sú, að eftir að túristarnir fá lýsingu af barni sem er millibil á milli stelpunnar í Excorcist, drengsins í Omen 3 og Cujo, endar leiðsögnin við leiði Fríðu Magnúsdóttir, sem lést sex ára gömul eftir botnlangakast.
Jónas Freydal segir ekki hafa verið ”ætlunin” að særa eða niðurlægja neinn, en sagan hafi byggst á flökkusögu og notast hafi verið við leiðið þar sem það hentaði vel. Hentaði vel!

Nú, fyrsta einkenni flökkusagna er einmitt nafnleysi, þær eru líka þekktar undir skammstöfuninni FOAF - það sem vinur vinar sagði mér. Margar sagnir eru úr miklum bálki um ógnir framandi menningarheima, sögur á við tarantúlur í bananaklösum og njálg á nammibarnum. Þær sagnir eru um hræðsluna við hið óþekkta, á við ferðalög og ókunna menningu, þar sem hreinlæti matar og drykkjar er (að okkar mati) ábótavant. 
Annað einkenni flökkusagna er nákvæm útlistun, en hún er aldrei perónulegri en “kona”, “maður” eða “stelpa”. Sígild er sagan um íslensku konuna sem var á ferðalagi um Evrópu og fann lítinn hund, sem hún tók heim með sér. Þau verða svo náin að hundurinn sefur uppi í rúmi. Svo kemur í ljós, að þetta var rotta! Fjölmörg tilbrigði eru til af þessari sögu, m.a. í flökkusagnabókinni The Mexican Pet eftir Brundvand, nema þar er konan amerísk og rottan frá Mexíkó. 
Brunvand tók fyrst eftir þessari sögn haustið 1983. Í sögunum sem hann hefur safnað hefur dýrið fundist í Acapulco, sem sé við ströndina; nálægt útiveitingahúsi í Mexico City, eða á ómalbikaðri þorpsgötu. Fjöldi staða gerir sögnina að dæmigerðri “flökku”sögn og fundarstaðir eru tíundaðir nákvæmlega. Algengt er að flökkusagnir tíundi staðsetningu, sem vissulega gerir sögurnar miklu trúverðugri, en ef þær geruðst í “stórborg” eða á “Íslandi”.

Það sem Jónas Freydal hefur hins vegar gert, er að taka meinta flökkusögu og persónugera hana á mjög niðurlægjandi hátt fyrir alla ættingja barnsins, en í raun líka fyrir alla Íslendinga. Í því sem Jónas Freydal gerir er mikil “öðrun” eins og Timothy Tangherlini nefnir það – þar sem Íslendingar eru gerðir að andsetnum djöfladýrkendum, með krossana á hvolfi, sem þurfa að hella sementi yfir lík ástvina okkar til þess að þau haldist í gröfunum. Ja, fjandinn fjarri mér!

Þetta er það sem bróðir litlu telpunnar og náinn ættingi er að mótmæla. Og til þess hefur hann að minnsta kosti jafn mikinn rétt og Jónas Freydal til þess að selja Ísland sem einhvers konar síðari daga Salem í Massachusetts.

Því svona gera menn ekki. Og ef þeir sjá ekki sóma sinn í að láta af sinni leiðu iðju, verður að aðstoða þá við það. Það er engin ástæða til að sitja þegjandi hjá og horfa upp á heila þjóð ataða djöfladýrkendastimpli af því að það þarf að selja hvaða subbuafurðir sem er.

 


Að lepja dauðann úr skel

Horfðu í augun á mér Steingrímur og segðu við mig að þetta verði svona áfram.Að þið Jóhanna og ykkar hirð munuð halda áfram taka af okkur áunnin og guðs gefin réttindi, leggja á okkur álögur, byrðar og skatta í staðinn - en um leið gera okkur að þriðja flokks borgurum í eigin landi. Sem bara er hægt að svipta eignum sínum þrátt fyrir stórfelldan forsendubrest.  Þrátt fyrir að einhver allt annar hafi framið glæpinn. Þú segist efast um getu Alþingis til að ráða við það verkefni að endurreisa efnhag landsins. Heldurðu að við efumst eitthvað um ykkar getuleysi? Segðu okkur nú að þetta verði svona enn um sinn. Kannski í 14 mánuði í viðbót?Eða bara þar til gengið hressist og þið eruð komin í björgunarbátana.Biddu okkur svo um að hafa skilning á því. Um að umbera það. Segðu: Við erum öll í sama bát. Segðu: Björgunarleiðangur.  Líttu svo á þjóðina mína, með andlitin skínandi eins og sól í gegnum kirkjuglugga.Skildu, að ef við öðlumst von, getum við lyft enn einu Grettistakinu, í viðbót við þau sem afar okkar og ömmur lyftu, feður okkar og mæður, við og börnin okkar.Við erum búin að lyfta aftur og aftur fyrir Ísland – þá köldu móður. Þola henni margt sem maður þolir einungis ættingjum. Við gætum alveg lyft enn einu Grettistaki - en aðeins ef við fáum von.Von um breytta stjórnarháttu með lýðræðisstefnu í fyrirrúmi í þetta sinn.Von um leiðréttingar húsnæðislána - fyrir næstu helgi.Von um að búið sé að setja handbremsu og handjárn á alla fjármála - og stjórnsýsluspillingu.Von um sanngirni. Réttlæti. Að það sé til einhvers að lyfta í þetta sinn. Því Steingrímur, þú veist að við eigum réttindi - ekki réttindi sem þín ríkisstjórn skaffaði okkur, ekki heldur sú á undan ykkur, né sú sem sat þar áður. Ónei. Við eigum réttindi sem afar okkar og ömmur strituðu til þess að færa okkur. Að vera frjálst fólki í frjálsu landi. Með rétt til þess að fæða okkur sjálf og klæða og útvega fjölskyldu okkar þak yfir höfuðið, sem ekki væri hægt að svipta okkur næst þegar vantaði skotsilfur til að halda úti glötuðu safni ’embættismanna’.Þar áður eigum við reyndar réttindi frá skapara okkar, um að mega lifa þar til við deyjum. Lifa án þess að þurfa að berjast blóðugum bardaga fyrir því sem við áttum til þess að byrja með.  Steingrímur, við megnum að stöðva ’ráðamenn’, sem ætla að viðhalda status quo. Því status quo hefur það verið undanfarið ár og kvart – allavega hvað varðar stærsta og mikilvægasta hóp þeirra sem þetta land byggja – millistéttina. Það er verið að murka lífið úr millistéttinni með aðgerðum ykkar. Allir – með hagfræðigráðu eða án - mega vita að það er ekki hægt að reka hagkerfi án millistéttar og sú tilraun verður aldrei reynd neins staðar annars staðar en hér.Hún er bara heimskuleg.Hin heimskulega lausnin er sú að veifa hvítri dulu að Bretum. Það er fínt að vera kristinn og snúa hinni kinninni að, en að lúta í gras og skríða af stað eins og snákur, það er strax annað mál. Ég fer svo ekki út í hér hvað er verið að gera fyrir auðstéttina. Allir fréttatímar í fjórtán mánuði hafa verið fullir af því. Eins og ég var að segja: Við eigum réttindi. En veistu hvað, Steingrímur? Stundum finnst mér eins og þið Austurvellingar haldið að við vitum ekki að við eigum réttindi. Fyrir utan þessi sem við höfum fjórða hvert ár. En vitanlega færuð þið ekki að frýja okkur vits. Það væru nú aumu rekstraraðilarnir sem vanmætu starfsfólkið svo herfilega. 
mbl.is Íslendingum ekki verið hótað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Boston og Breiðavík

Þetta er endurtekið efni frá Boston fyrir nokkrum árum. Nú, eða Breiðavík, nema í tilviki kaþólsku kirkjunnar hafa hingað til verið greiddar fúlgur fjár í skaðabætur fyrir glötuð líf.

John Kelly var á írsku upptökuheimili í 3 ár, en þangað var hann sendur fyrir að stela súkkulaðistykki. Flest þau börn sem urðu fyrir þessu voru "tekin" fyrir að skrópa í skóla, stela úr búðum - eða fyrir að vera börn einstæðra mæðra. John starfar nú fyrir samtökin SOCA, sem eru fulltrúar fórnarlamba barnaofbeldis. Rúmlega 2000 aðilar hafa nú sagt frá ofbeldi sem þeir urðu fyrir af kirkjunnar mönnum - sem "refsað" var með því að flytja þá til í starfi.

Í Kaliforníu árið 2007, þurfti kaþólska kirkjan að greiða rúmlega 500 manns skaðabætur upp á 660 milljónir dollara, vegna kynferðisofbeldis kaþólskra presta.

Þegar upp komst um misferlið í Boston fyrir sjö árum, kom í ljós að erkibiskupsdæmið í Boston hafði verið að borga fórnarlömbum presta stórar fjárfúlgur á undanförnum árum. Eitt þekktasta málið var mál séra Porters sem kom upp árið 1992; 65 fórnarlömb höfðu stofnað samtök sem hétu einfaldlega Fórnarlömb séra Porters, áður en kirkjan gaf sig og borgaði þeim skaðabætur.
Þegar mál séra Porters varð opinbert hafði Bernard Law kardínáli fullvissað sóknarbörn sín um að kirkjan hefði ómögulega getað vitað um eða stöðvað þennan eina spillta mann innan kirkjunnar
og að and-kaþólsk öfl hefðu gert miklu meira úr málinu en efni stóðu til.
Sátt hafði tekist um flest hinna málanna, án þess að nokkuð þeirra kæmi fyrir dómara.
Þetta var þægilegt fyrirkomulag: Kirkjan fékk að halda sínum ljótu leyndarmálum fyrir sig;
fórnarlömbin, full af skömm og grunlaus um fjölda hinna fórnarlambanna, gátu varið einkalíf sitt.
Þótt málin færu ekki fyrir dóm, þóttu þau innan kirkjunnar nægilega trúverðug til þess
að fórnarlömbin voru að fá leynilegar skaðabætur í málum í það minnsta 70 presta.

Það sem fór þó verst í fólk var að Law kardínáli og menn hans höfðu tekið þátt í að þagga málin niður; að í stað þess að gæta sinna minnstu bræðra, höfðu æðstu menn kirkjunnar í raun ýtt þeim út á hraðbrautina. Hneykslin voru þögguð niður, gerendur voru fluttir í nýjar sóknir, þar sem þeir gátu fundið sér ný fórnarlömb og haldið áfram sinni leiðu iðju.

Ef einhverjar hetjur er að finna í þessum sorglegu sögum, þá eru það fórnarlömbin sem loksins fengu málið og fundu hjá sér hugrekki til þess að stíga fram í dagsljósið eftir að bera harm sinn í hljóði árum saman, stíga fram og segja: ,,Þetta er það sem henti mig og þetta er rangt.”


mbl.is Írska kirkjan hylmdi yfir kynferðisglæpi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar ég verð gömul

 Ég á afmæli í dag. Langar að deila með öllum afmælisbörnum dagsins, sem m.a. eru Anna Benkovic og Reynir Traustason, svo og vinum og vandamönnum, öllum Sporðdrekum, skattborgurum, kjósendum, neytendum, börnum og öllum öðrum landsmönnum, þessum hugsanlega tímabæru hugleiðingum:

 

,,Ég ætla að ganga í vínrauðu þegar ég verð gömul

 Með rauðan hatt sem misklæðir mig og er kolvitlaus litur Eyða lífeyrinum í koníak og gjálífi silkikjóla og glerskó  og segja við eigum ekki fyrir mjólk. Setjast á gangstéttina þegar ég verð þreytt Standa sem fastast við borðin á smakkdögum í búðunum Fara í bófahasar á Óðinsgötunni Og bæta upp bælda æsku þar sem ég fékk ekki nema svona tvisvar á ári að vera úti á peysunni. Ég ætla út á ballkjól í rigningu Og tína blóm úr annara manna görðum Læra að blístra í fingurna – hrikalega hvellt! Var samt að spá í hvort ég ætti ekki að byrja á þessu fljótlega? Svo fólk hrökkvi ekki í kút 

Þegar ég fer að ganga í vínrauðu."

Guð blessi ykkur öll,

  

Er SJS Hrói höttur?

Eða er hann fógetinn í Nottingham?

Hrói höttur er hetja sem berst gegn óréttlæti og harðstjórn.
Hann er maðurinn sem stelur frá þeim ríku til að gefa þeim fátæku.
Hrói höttur gerir hvað sem er, jafnvel að brjóta lögin, til að aðstoða þá sem minna mega sín.

Í sögunum er fógetinn í Nottingham mikill harðstjóri sem misnotar stöðu sína til að bæta eigin hag,
t.d. með ólögmætum eignaupptökum á landi, ofursköttum og ofsóknum á hendur hinum fátæku.

Ég er nú ekki farin að sjá Steingrím sem skúrk ennþá, en víst er að hann var látinn taka við hlutverki myrkrahöfðingjans í íslenska þjóðarleikhúsinu.


mbl.is 47% skattur á launatekjur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband