Gott að opna á þetta mál...

...það ER nefnilega algengt.
Ég ræddi annað afbrigði af einelti við Thelmu Ásdísardóttur, ráðgjafa hjá Drekaslóð, Fræðslu- og þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Thelma sagði mér frá einelti innan fjölskyldna og þetta er magnaður lestur, því eins og Thelma segir: Fólk sem elst upp við svona aðstæður er allt sitt líf að glíma við sígildar afleiðingar ofbeldis: Brotna sjálfsmynd, gríðarlega skömm, mikla sektarkennd, oft mikla reiði, mikla höfnunartilfinningu og ofboðslega sorg.

,,Í fyrsta lagi eru þessi mál mun fleiri en ég bjóst við, áður en við opnuðum Drekaslóð. Ég hafði giskað á að flest eineltismál væru framin í æsku og þá oftast innan skóla. Þau mál sem við höfum þó fengið flest af, eru eineltismál innan fjölskyldna og þá sést gjarnan eftirfarandi mynstur:
Algeng uppsetning er að einhver einn úr systkinahópi er tekinn fyrir. Oft er einn sem leiðir, er aðalgerandi og virki aðilinn í ofbeldinu. Það er sá sem hefur frumkvæðið, gefur hinum leyfið og beitir harðasta ofbeldinu, hvort sem er andlegu eða líkamlegu. Síðan eru einn eða fleiri, sem eru sterkir fylgjendur. Þeir fylgja aðalgeranda og samþykkja hérumbil allt sem frá honum eða henni kemur. Þeir eiga sjaldnast frumkvæði að ofbeldinu, en taka þó virkan þátt í öllu sem aðalofbeldismaðurinn gerir, hvetja hann og eru virkir.
Svo eru þeir sem samþykkja ofbeldið með því að gera og segja ekki neitt. Þeir taka ekki beinan þátt, en standa hjá og horfa og koma ekki þolanda til bjargar eða varnar. Með því að þeir horfa og hlusta á ofbeldið, án þess að andmæla því, upplifir þolandinn auðvitað þennan hóp innan fjölskyldunnar sem hluta af ofbeldinu.“
Thelma segist trúa því, að fólk sem stendur svona hjá og fylgist í rólegheitum með ofbeldi, geri það af ótta. ,,Það óttast að ef það stigi fram og verji þolandann, lendi það í sömu aðstæðum og hann. Við sjáum í splundruðum fjölskyldum, að þeir sem taka málstað þolandans eru gjarnan úthrópaðir líka. Svo er mjög sterkt í okkur að vera hluti af heild. Óttinn við að vera settur út í kuldann er rosalegur. Þá er auðveldara að gera ekki neitt og horfa bara á, jafnvel þótt það þýði að horfa upp á aðra þjást. Auðveldara að loka augunum, fara í afneitun og finna aðrar, þægilegri skýringar, heldur en að stíga fram og viðurkenna að eitthvað hafi verið að; eitthvað þurfi að endurskoða; viðurkenna mistök. Auðvitað koma líka til okkar mál þar sem fólk er hugrakkt; tekur á málum og vinnur með þolanda, en hitt sjáum við gerast allt of oft. Meira að segja hefur fólk sem opnaði kynferðisofbeldi innan fjölskyldu og fékk mjög harkaleg viðbrögð, dregið sögu sína til baka og sagst hafa verið að ljúga, bara til að fá að vera inni í fjölskyldunni áfram.
Við erum félagsverur og þegar við erum lítil, þurfum við á því að halda að tilheyra og það tel ég jafn mikilvægt fyrir börn og að hafa næga fæðu og þak yfir höfuðið. Börn verða að vita að þau séu elskuð, samþykkt og eigi öruggt skjól, en börn sem eru tekin svona fyrir í einelti innan fjölskyldna, fá aldrei þá vissu. Einstaklingar sem alast upp við svona aðstæður eru oft allt sitt líf að reyna að fá viðurkenningu og þá helst frá foreldrunum.
Ef við tökum dæmigerða einræðisherrafjölskyldu, eins og mína, þar sem er einn mjög sterkur einstaklingur sem beitir alla í fjölskyldunni ofbeldi, þá eru allir fjölskyldumeðlimir í þeirri stöðu að lifa af. Jafnvel þó að mamma hafi séð ýmislegt hræðilegt gerast, þá hafði hún ekki bolmagn til að standa gegn honum. Ógnin er svo ofboðsleg og að búa við stöðuga ógn getur dregið kjark og mátt úr besta fólki. Á hinn bóginn er svo auðvelt fyrir þá sem ekki eru í þessum aðstæðum að segja: „Ég hefði nú brugðist svona við,“ – og dæma þá sem ekki gera það.“

Hvernig lýsir sjálft eineltið sér innan fjölskyldu?
,,Oftast er það þannig að annað foreldrið hæðist að barninu, kúgar það og niðurlægir og það hefur augljóslega ekki sömu réttindi og hin börnin. Það býr ekki við sama aðbúnað, fær ekki sömu uppörvun og ekki sömu möguleika á íþróttaiðkun eða tómstundum. Varðandi hið efnislega fær það greinilega ódýrari gjafir en systkini sín. Oft er þetta það lúmskt, að barnið sjálft á gríðarlega erfitt með að greina það. Það einfaldlega upplifir sig síðra og lélegra og telur þetta eðlileg viðbrögð foreldra við því að það sé eitthvað að því sjálfu. Það fer oft að keppast við að standa sig betur til að fá hrós og viðurkenningu frá foreldrunum, en hin systkinin „læra“ og alast upp við, að þetta barn sé lélegra en þau hin. Þannig er búið að gefa veiðileyfi á þetta eina barn og normið í fjölskyldunni verður, að þetta eina barn er lagt í einelti af öllum hinum. Það sem við sjáum síðan oft gerast, er að þetta smitast út í stórfjölskylduna. Svona börn sýna vitanlega afleiðingar og fara kannski að sýna alls konar hegðun, til að fá athygli og viðurkenningu eða til að verja sig. Þarna er þetta barn komið í þá aðstöðu að reyna að lifa af erfiða æsku. Hegðun þess er stundum neikvæð, þannig að þeir sem hófu eineltið, telja sig þar hafa fengið staðfestingu: Auðvitað er eitthvað að krakkanum! Þar með er hægt að segja: Hún hefur alltaf verið skrýtin, eða hann hefur alltaf verið klikkaður. ,,Já, auðvitað fór hann í neyslu; við vissum alltaf að það var eitthvað að honum,“ – þegar barnið er kannski bara að sýna viðbrögð við eineltinu og ofbeldinu. Þetta eina barn, sem jafnvel frá unga aldri hefur verið beitt andlegu ofbeldi og stundum líkamlegu – oft á þann hátt að líkamlegt ofbeldi af hendi hinna systkinanna, er liðið – þetta barn trúir því sjálft, jafnvel fram á fullorðinsár, að eineltið hafi verið vegna þess að það var eitthvað að því sjálfu.
Eftir að þetta smitast út í stórfjölskylduna, verður það viðurkennt viðhorf, að eitthvað sé „að“ þessari einu manneskju. Þá er henni ýtt til hliðar, hún er jafnvel álitin geðveik og nýtur ekki sömu réttinda innan fjölskyldunnar. Ég hef oft séð slíkan einstakling hlunnfarinn og sniðgenginn um réttmætan arf. Vissulega finnst flestum erfitt að fara að láta í sér heyra út af peningum – en þetta snýst ekki um upphæðir, heldur óréttlæti. Líka óréttlætið sem felst í því að vera settur út úr hópnum og allt að því brennimerktur. Fólk sem elst upp við svona aðstæður er allt sitt líf að glíma við allar sígildar afleiðingar ofbeldis: Brotna sjálfsmynd, gríðarlega skömm, mikla sektarkennd, oft mikla reiði, mikla höfnunartilfinningu og ofboðslega sorg. Svo er spurningin hvað maður gerir við sterkar tilfinningar eins og þessa reiði. Hættan er sú að hún fari í eitthvað mjög lítt uppbyggilegt, ef fólk vinnur ekki með hana.“


mbl.is Einelti spyr ekki um stöðu fólks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heyr, heyr

Sjálfsagt að stjórnvöld hlutist til um að þýfinu verði skilað til fólksins. Tími til kominn - fyrir löngu.
En eins og endranær á Íslandi, þora fæstir að tala um þetta upphátt - því fólk er hrætt við að verða fyrir enn meira einelti ef það fer að stuða þá sem ráða - í bönkum og öðrum valdastofnunum.
mbl.is Harmar lúalega aðför stjórnvalda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Efins um þetta útspil...

...hjá þeim sem gengu út.
Hrædd um að það skili þeim ekki miklu sem forsetaframbjóðendum.
En jú, það komst til skila að þeim væri misboðið.
Og skapaði vissulega rafmagnað andrúmsloft.
Og þau sýndu hvert öðru samstöðu - en hvað með mig, sem er kjósandi og þekki þau ekkert?
Hvernig á ég að kynnast þeim?
Lesa það sem þau skrifa um sig á síðuna sína?
Því eins og Herdís og Þóra sögðu:
Það er mikilvægt fyrir frambjóðanda að leyfa kjósendum að sjá framan í sig, heyra í sér og tjá sínar skoðanir á embættinu.

Og því tækifæri höfnuðu þessir frambjóðendur.


mbl.is Yfirgáfu kappræður í Hörpu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skólinn hans Jans Guillous?

Sem JG skrifaði um bókina Ondskan?
Og tók svo skólastjórann á beinið eftir að JG varð blaðamaður?
Veit það ekki - en hljómar mjög svipað.
mbl.is Gróft einelti í sænskum heimavistarskóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þeirra eigin úrræði...

Góður, Sigurður:
"Hér eru t.d ráð sem þið hafið gefið okkur:
1. Þar sem minna fé er nú til skiptana ráðlegg ég ykkur að draga úr kostnaði. Það hefði nú verið skynsamlegra að bruðla mynna t.d í flatskjái og þið hefðu átt að fara varlega í ykkar fjárskuldbindingum t.d hefðuð þið ekki átt að leigja ykkur alltof stórar kosningarskrifstofur.
2. Leitið til Umboðsmanns bankanna…. afsakið… umboðsmanns skuldara. Það er mjög got úrræði sem tugþúsundir hafa nýtt sér. Þar er til dæmis hægt að komast í skjól og allskonar.
3. Ef einhvað af þessum lánum eru erlend skuluð þið bara bíða róleg eftir c.a 6 til 7 eða jafnvel 10 hæstaréttardómum.
4. Skuldurum gefst nú tækifæri á að nýta sér um það bil 50 önnur úrræði sem samin hafa verið af okkar ástsælu ríkisstjórn.
Ég vil svo gefa ykkur ráð:
5. Talið við Steingrím J Sigfússon. Grikkir hafa sýnt honum mikinn áhuga þar sem hann hefur náð gríðarlegum árangri á heimsvísu við að rífa okkur upp úr þessu ástandi. Hann ætti nú að geta tekið svolítið til í þessu litla dæmi sem þið eruð í vandræðum með.
6. Eruð þið búin að tala við hann Árna Pál. Hann ætti ekki að vera í miklum vandræðum með að kokka saman lög sem hjálpað gætu til, þó þau verði svo dæmd ólögleg í hæstarétti.
Þetta er nú þau ráð og úrræði sem ég í fljótu bragði man."

Er nokkru við að bæta?


mbl.is „Skondið að þið skulið leita til mín“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vissi það...

en samt veit maður það aldrei fyrr en feita konan syngur.
Til hamingju Ísland - ég er ekki þessi "bezt í heimi" Íslendingur, en ætla bara að segja:
Þetta var langsamlega flottasta lagið!
mbl.is Ísland komst áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til hamingju

Birgitta, Noam og Naomi - og allir hinir jarðarbúarnir!
mbl.is Birgitta og aðrir aðgerðasinnar lýsa yfir sigri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Farðu vel með þig, Halldóra

Höfuðhögg eru ekkert grín.
Ef ég réði, myndi ég banna þér að leika í kvöld.
Vil endilega koma með blómadropa til þín.
Er í 845-3747.
mbl.is Fékk rólu í höfuðið í Rómeó og Júlíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæsileg úttekt...

á stórkostlegum bókum.
Hef ekki getað klárað Mockingjay - svo rosalega sorgleg, en naut fyrstu 2.
Enn ein túlkun er sú að Collins sýni rosalega vel einkenni PTSD, sem einmitt hermenn þjást mjög af. Menn sem hafa verið sendir í stríð, upplifað hroðalega hluti og þurft að drepa. Sýni þau bæði í Katniss og eiginlega flestum hinna.
Katniss kólnar upp, verður nánast vélmenni, aðrir djúsa, drepa og þjást.
Það má heimfæra Hungurleikana út um allt í hinum vestræna heimi i dag.
Því miður. Þess vegna eru þeir að hitta þessa taug, og sem betur fer skynjar unga fólkið það - og flykkist að.

mbl.is Myndi deyja á fyrstu 30 sekúndunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Narsissisti dauðans

Það tók Ingu Bajer Engh saksóknara 35 mínútur að lesa nöfn allra þeirra sem létust fyrir hendi Breiviks í Ósló og í Útey!
35 mínútur. Að lesa nöfn þessara blessaðra barna!
Norskir fjölmiðlar verða að sýna þennan geðsjúkling, en íslenskir fjölmiðlar þurfa til dæmis ekki að nefna nafn hans (og bölvað sé það að eilífu), né kalla hann annað en norska fjöldamorðingjann - og ég legg hér með til að þannig verði hann kynntur meðal okkar framvegis - sem nafnlaus og ærulaus norskur fjöldamorðingi. Því þessi sýkópati dauðans á ekki skilið að fá eina sekúndu af okkar athygli - það er norska þjóðin, frændur okkar, sem eiga okkar athygli og okkar samúð skilið.
Og þessi mannslingur er ekki hluti af norsku þjóðinni, ekki síðan 22. júlí 2011.
mbl.is Sagður óhóflega sjálfselskur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband