9.11.2008 | 18:44
Síðasti Geirfuglinn
TEGUND Í ÚTRÝMINGARHÆTTU
Geir!
mig langar svo að tala við þig
segja þér hvernig mér líður
vonandi er ég ekki að trufla
ertu upptekinn þessa dagana?
Geir,
ég er þegn í landinu
sem þú ræður eða réðst?
geturðu sagt mér, Geir
hvað verður um landið mitt?
mér finnst svo óþægilegt að vita það ekki
Geir, þú þekkir mig ekkert,
við höfum einu sinni sést, (hef líka séð Jón Ásgeir einu sinni)
ég hef alltaf verið dugleg að vinna
ég vann í humri
ég menntaði mig
keypti íbúðir (eina í einu)
átti börn og buru
breytti og bætti
fór og kom aftur
til þín
Geir, í fimm vikur
hef ég séð sektarkenndina naga þig
ég veit hvernig tilfinning það er að hafa brugðist
og langa til að fela sig
skríða ofan í holu
bara ef gólfið opnaðist ?
En Geir minn
ég get því miður ekki hjálpað þér núna
og borgað fyrir geimið sem ég tók ekki þátt í
og ég er svo fegin að þú ætlar ekki að persónugera vandann,
þá þarf mín persóna bara ekkert að koma inn í þetta.
Því ég verð að fara frá þér núna, Geir,
þetta gengur ekki á milli okkar lengur
þú ert farinn að haga þér af fullkomnu ábyrgðarleysi
með peningana mína
framtíðarhag barnanna,
ertu búinn að veðsetja þau?
Öll börnin okkar, Geir?!
Ég skil vel að þú viljir ekki missa vinnuna, Geir
hver vill það?
Var það til að halda vinnunni að þú skortseldir börnin okkar?
Ertu að segja að ég eigi að borga þér launin þín
aftur
þann fyrsta desember?
Af hverju ertu að hlæja?
Ég veit alveg, Geir
að það verður í lagi með mig
en Geir,
hvað með alla hina
hvað með börnin?!
Þetta lán (í óláni)
sem þú ert alltaf að segja að komi eftir helgi,
hver á að borga það?
Er það nokkuð ég?
Ha, Geir, ha?
Þá er ég ekki til í að þú takir það.
Þú kannt ekkert með peninga að fara.
Þú veist það, Geir.
Í hvað eiga þessir peningar sem þú ætlar að taka í mínu nafni - að fara?
Til að afskrifa lán fyrir Jón Ásgeir?
Kaupþing ertu ekki að jóka í mér?
Og borga fyrir kosningabaráttuna þína í vor?
Ertu orðinn brjálaður maður?
Svona, Geir minn, manstu þegar Davíð varð borgarstjóri
svo forsætisráðherra, alveg eins og þú
seðlabankastjóri
þá voruð þið svo oft saman
þá var gaman, ha?
Geir,
ég vona að þjóðin gefi þér upp sakir
en ég verð að drífa mig núna
þú skilur,
ég jafna mig á þér
og ég myndi hjálpa þér að borga, Geir
með einu skilyrði
að þú værir að sýna merki um að taka þig á
sýna að við værum saman í þessu
en það eru liðnar fimm vikur
og ég er ekki til í það lengur
ekki eftir að þú seldir börnin okkar, Geir
ekki eftir að þú neitar að segja mér hvað þú ætlar að gera við ólánið, Geir,
góða nótt
Innblásið af ljóði Höllu Gunnarsdóttur til Björgólfs G.,
Reykjavík, 9. nóvember 2008,Þórdís Bachmann
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.