4.12.2009 | 22:26
SVONA GERA MENN EKKI
Jónas Freydal, eigandi Draugaferða í Reykjavík íhugar nú alvarlega hvort ferðir hans í Kirkjugarðinn við Suðurgötu verði lagðar af vegna gagnrýni Þórs Magnússonar, sem segir Draugaferðir selja aðgang að lygasögu um hálfsystur sína.
Þótt Jónas Freydal íhugi að leggja ferðirnar niður, hyggst hann þó fara í mál við Þór vegna greinar Þórs um málið. Væntanlega þá vegna þess að hann hafi ákveðið að leggja ferðirnar niður?
Málsatvik eru fólki kunn; en lýsingin á skemmtigöngunni er sú, að eftir að túristarnir fá lýsingu af barni sem er millibil á milli stelpunnar í Excorcist, drengsins í Omen 3 og Cujo, endar leiðsögnin við leiði Fríðu Magnúsdóttir, sem lést sex ára gömul eftir botnlangakast.
Jónas Freydal segir ekki hafa verið ætlunin að særa eða niðurlægja neinn, en sagan hafi byggst á flökkusögu og notast hafi verið við leiðið þar sem það hentaði vel. Hentaði vel!
Nú, fyrsta einkenni flökkusagna er einmitt nafnleysi, þær eru líka þekktar undir skammstöfuninni FOAF - það sem vinur vinar sagði mér. Margar sagnir eru úr miklum bálki um ógnir framandi menningarheima, sögur á við tarantúlur í bananaklösum og njálg á nammibarnum. Þær sagnir eru um hræðsluna við hið óþekkta, á við ferðalög og ókunna menningu, þar sem hreinlæti matar og drykkjar er (að okkar mati) ábótavant.
Annað einkenni flökkusagna er nákvæm útlistun, en hún er aldrei perónulegri en kona, maður eða stelpa. Sígild er sagan um íslensku konuna sem var á ferðalagi um Evrópu og fann lítinn hund, sem hún tók heim með sér. Þau verða svo náin að hundurinn sefur uppi í rúmi. Svo kemur í ljós, að þetta var rotta! Fjölmörg tilbrigði eru til af þessari sögu, m.a. í flökkusagnabókinni The Mexican Pet eftir Brundvand, nema þar er konan amerísk og rottan frá Mexíkó.
Brunvand tók fyrst eftir þessari sögn haustið 1983. Í sögunum sem hann hefur safnað hefur dýrið fundist í Acapulco, sem sé við ströndina; nálægt útiveitingahúsi í Mexico City, eða á ómalbikaðri þorpsgötu. Fjöldi staða gerir sögnina að dæmigerðri flökkusögn og fundarstaðir eru tíundaðir nákvæmlega. Algengt er að flökkusagnir tíundi staðsetningu, sem vissulega gerir sögurnar miklu trúverðugri, en ef þær geruðst í stórborg eða á Íslandi.
Það sem Jónas Freydal hefur hins vegar gert, er að taka meinta flökkusögu og persónugera hana á mjög niðurlægjandi hátt fyrir alla ættingja barnsins, en í raun líka fyrir alla Íslendinga. Í því sem Jónas Freydal gerir er mikil öðrun eins og Timothy Tangherlini nefnir það þar sem Íslendingar eru gerðir að andsetnum djöfladýrkendum, með krossana á hvolfi, sem þurfa að hella sementi yfir lík ástvina okkar til þess að þau haldist í gröfunum. Ja, fjandinn fjarri mér!
Þetta er það sem bróðir litlu telpunnar og náinn ættingi er að mótmæla. Og til þess hefur hann að minnsta kosti jafn mikinn rétt og Jónas Freydal til þess að selja Ísland sem einhvers konar síðari daga Salem í Massachusetts.
Því svona gera menn ekki. Og ef þeir sjá ekki sóma sinn í að láta af sinni leiðu iðju, verður að aðstoða þá við það. Það er engin ástæða til að sitja þegjandi hjá og horfa upp á heila þjóð ataða djöfladýrkendastimpli af því að það þarf að selja hvaða subbuafurðir sem er.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.