26.10.2009 | 19:07
Flosi 4ever
Fyrir um tveimur árum, þegar ég var að vinna handrit að þáttaröð um eldri leikarana okkar Íslendinga, ræddi ég við meðal annarra við Flosa, sem nú fer nokkrum dögum fyrir áttræðisafmælið sitt og Brynju Ben sem hvarf okkur skyndilega nokkrum vikum eftir sjötugsafmælið sitt.
Á milli þess sem við Flosi ræddum um ástina og kynlífið, sem var honum hugleikið og hann hafði heilbrigðan áhuga á, eins og títt er um Sporðdreka, töluðum við m.a. um þýðingarferil hans, en sá ferill er dæmisaga um að búið er að spotta náttúrutalent: ,,Það var farið að biðja mig um að samhæfa lög og texta, aðallega fyrir Þjóðleikhúsið og dáldið fyrir Óperuna. Stundum voru þýðendur að söngleikjatextum og óperettu-líbrettóum valdir úr stórum hópi góðra íslenskumanna; en þegar að því kom að þýða sönglagatexta, sem áttu að falla að tónlistinni, brást þeim oft bogalistin. Þá var ég fenginn til þess að yrkja textana upp á nýtt, þannig að orðin féllu að músíkinni. ,,Þetta er sérstök kúnst. Ekki nóg með að takturinn og jamban þurfi að standa eftir músíkinni, heldur líka hvaða sérhljóðar eru sönghæfir og fleira. Í Þjóðleikhúsinu voru stundum stórir söngleikir eins og Oklahoma. Í frumþýðingu var ekki einn einasti texti, sem var nokkur leið að gera sér grein fyrir að gæti verið texti við lagið í píanóskorinu. Algerlega ósyngjanlegur fyrir okkur sem vorum að leika í verkinu. Ég orti alla söngtextana í Oklahoma upp á nýtt, en var svo sem ekkert skrifaður fyrir þeim og allt í lagi með það. Ég var ekki mikið að spekúlera í hátíðleikanum á þeim árum, segir Flosi, sem er hvergi banginn við að minnast á hvar honum tókst miður upp.
Óvinur samfélagsins númer eitt,,Akureyringar kusu mig óvin samfélagsins númer eitt, út af tveimur vísum sem ég gerði um þá, eftir að búið var að reka mig sjö sinnum úr Menntaskólanum á Akureyri. Mér var þá ekki vært á Akureyri lengur og varð að fara suður heiðar og þá orti ég þessar tvær vísur:
Frá Akureyri er um það bil
ekki neins að sakna -
jú, þar er fagurt þangað til
þorpsbúarnir vakna.
Og hin er einhvern veginn svona ef ég man rétt:
Frá Akureyri ég býst á brott
á bitrum vetrardegi köldum
Á Akureyri er allmargt gott
en ekkert þó af manna völdum
,,Ég hef grun um að ég sé ekkert sérstaklega vinsæll á Akureyri, því að sér í lagi fyrri vísan er nokkuð þekkt, segir Flosi.
Nú, við brotthvarf hans heim, segir þó einn eðal-Akureyringur á sínu bloggi: birt án leyfis, af stebbfr.blog.is, og orðar fallega þann hug sem borinn er til Flosa, í öllum landshornum, held ég.
,,Tengsl Flosa við Akureyri eru órjúfanleg, tel ég, þó hann hafi reyndar ort einn kaldhæðnasta brag um bæinn fyrr og síðar. Hann nam hér og tók oft þátt í leiklistarstarfinu hér og var tíður gestur á leiksýningum hér. Hann var snillingur bæði í tjáningu og skrifum, hafði þá miklu náðargáfu að tala á mannamáli og vera sannur sagnamaður sem alltaf náði til fólks. Gamansögur hans í ræðu og riti urðu ógleymanlegar.
Þótt ég hafi notið þeirra miklu forréttinda að þekkja Flosa og Lilju persónulega, hef ég alltaf skynjað hann sem enn eina þjóðargersemi okkar Íslendinga, einn af þessu fólki sem við eigum öll. Og við syrgjum hann öll. Nú geta hins vegar allir sagt, í hvert skipti sem hans er minnst og það verður oft: Hann dó ungur, hann náði ekki einu sinni að verða áttræður.
Flosa hefði þótt það fyndið.
Guð blessi alla þá sem sakna hans og lúta höfði í þakklæti fyrir að fá að þekkja hann. Og Lilju.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:18 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.