3.5.2009 | 16:14
Gylfaginning
Þakka þér fyrir þennan hrokafulla boðskap, Gylfi - þú varst að herða fólk í þeim ásetningi að hætta nú að borga - hætta að bera í botnlausa hítina.
Og staðfesta það sem gengur fjöllum hærra: Að stjórnvöld reikni með að heimilin í landinu láti þetta lánamisrétti yfir sig ganga, þar sem það óttast að missa heimili sín.
Hér er fréttaskot: Stjórnvöld verða að reiða sig á eitthvað meira en að þessi ótti verði til þess að heimilin láti vaða yfir sig - til dæmis alvöru aðgerðir - og ekki byrja með bútasaumsteppið með bútunum 18.
Þú talar um að fólk "komi sér í vandræði" hætti það að greiða af lánum.
FYI - þessu sama fólki var KOMIÐ Í vandræði af óábyrgum stjórnmálamönnum sem dönsuðu Hrunadans við auðvaldið, þar til landið sökk. Þú bætir um betur og segir að þetta sé ,,svo fráleit hugmynd, að ekki þurfi að velta því fyrir sér að hún gerist í stórum stíl!"Þú talar niður til fólks "í stórum stíl" - er það dæmi um að tilgangur auðvaldsins sem rændi þjóðina helgi meðalið?
Eða ert þú lénsherra, sem veit að undirsátarnir hafa ekki og munu aldrei hafa sjálfstæðan vilja, hvað þá sjálfstæða hugsun?Orð þín og ótrúleg ósvífni benda til annars hvors - þú segist vera ráðherra viðskipta og ert að hóta lántakendum. Hvaðan er sá hugsunarháttur? Hulan er fallin frá augum okkar núna.Ég er nefnilega vinnuveitandi þinn og þess vegna áttu að sýna mér virðingu.
Fyrir 10 dögum sagðirðu það ,,fullkominn misskilning" að þjóðarbúið rambaði á barmi gjaldþrots og ennfremur að tjónið við hrunið væru fyrst og fremst peningalegar eignir, en eftir stæðu raunverulegar eignir og var þar fyrstur talinn mannauðurinn. Gylfi, mannauðurinn er á leiðinni úr landi. Og auðvitað blasir allsherjar kerfishrun við á næstu mánuðum og misserum með atvinnuleysi upp á marga tugi prósenta - og það alveg án þess að nokkur hætt að borga húsnæðislán.
Hrokafullt svar þitt við kröfu Sigmundar Davíðs um að fá birta niðurstöðu mats Oliver Wyman á eignum gömlu bankanna var líka fáránlegt og þú vílaðir ekki fyrir þér að fara í ráðamannalygaferð til New York, þar sem þú sagðir ,,miklu máli skipta að uppgjörið vegna bankahrunsins verði sanngjarnt og gagnsætt til að endurvekja trú alþjóðasamfélagsins á íslensku viðskiptalífi."
Gylfi, skítt með trú alþjóðasamfélagsins, það mun hvort eð er ENGINN lána Íslandi næsta áratug nema AGS. Það erum við hérna, skattborgarar og skuldarar, sem þarf að sýna sanngirni. Þú þarft að endurvekja trú mína og minna þjáningasystkina, sem voru rænd, rænd af sínu eigin fólki. Svo ert þú og þínir líkar að koma og ýmist að bera á borð fyrir okkur frasa eða hroka! Finnst þér hrokinn vera það sem best dugar á pöbulinn? Heldurðu að hroki þinn verði til þess að almenningur borgi skuldir óreiðumanna þegjandi? Og, náttúrulega, kaupið þitt.
Merkilegt, í janúar virtistu vera manneskja, en daginn eftir að þú settist í stólinn varstu orðinn maðurinn sem sagði: ,,Ef eitthvað verður gert fyrir heimilin, ÞÁ fer efnahagslífið hérna á hliðina." (!)Loks vil ég taka undir orð Axels Péturs í Gylfi 180°: ,,Mín skilaboð til Gylfa eru: Vanhæfur ráðherra, taktu pokann þinn og farðu heim!
Flestir geta staðið í skilum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Heyr Heyr, gott hjá þér, þetta er týpískur embættismannahroki, það er greinilegt að almenningshagsmunir eru ekki ofarlega í huga þessa manns.
Ásdís Hildur Jónsdóttir, 3.5.2009 kl. 16:22
Frábær texti hjá þér.
Tek undir hvern staf hjá þér.
Ég hef grun um að Gylfi sé að komast að því að hann ráði einfaldlega ekki við starfið og það sé farið að valda honum skapgerðarbrestum. Hann reynir sennilega í fyrstu að fela vanmátt sinn að baki hrokans.
Páll A. Þorgeirsson, 3.5.2009 kl. 16:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.