Gott að opna á þetta mál...

...það ER nefnilega algengt.
Ég ræddi annað afbrigði af einelti við Thelmu Ásdísardóttur, ráðgjafa hjá Drekaslóð, Fræðslu- og þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis. Thelma sagði mér frá einelti innan fjölskyldna og þetta er magnaður lestur, því eins og Thelma segir: Fólk sem elst upp við svona aðstæður er allt sitt líf að glíma við sígildar afleiðingar ofbeldis: Brotna sjálfsmynd, gríðarlega skömm, mikla sektarkennd, oft mikla reiði, mikla höfnunartilfinningu og ofboðslega sorg.

,,Í fyrsta lagi eru þessi mál mun fleiri en ég bjóst við, áður en við opnuðum Drekaslóð. Ég hafði giskað á að flest eineltismál væru framin í æsku og þá oftast innan skóla. Þau mál sem við höfum þó fengið flest af, eru eineltismál innan fjölskyldna og þá sést gjarnan eftirfarandi mynstur:
Algeng uppsetning er að einhver einn úr systkinahópi er tekinn fyrir. Oft er einn sem leiðir, er aðalgerandi og virki aðilinn í ofbeldinu. Það er sá sem hefur frumkvæðið, gefur hinum leyfið og beitir harðasta ofbeldinu, hvort sem er andlegu eða líkamlegu. Síðan eru einn eða fleiri, sem eru sterkir fylgjendur. Þeir fylgja aðalgeranda og samþykkja hérumbil allt sem frá honum eða henni kemur. Þeir eiga sjaldnast frumkvæði að ofbeldinu, en taka þó virkan þátt í öllu sem aðalofbeldismaðurinn gerir, hvetja hann og eru virkir.
Svo eru þeir sem samþykkja ofbeldið með því að gera og segja ekki neitt. Þeir taka ekki beinan þátt, en standa hjá og horfa og koma ekki þolanda til bjargar eða varnar. Með því að þeir horfa og hlusta á ofbeldið, án þess að andmæla því, upplifir þolandinn auðvitað þennan hóp innan fjölskyldunnar sem hluta af ofbeldinu.“
Thelma segist trúa því, að fólk sem stendur svona hjá og fylgist í rólegheitum með ofbeldi, geri það af ótta. ,,Það óttast að ef það stigi fram og verji þolandann, lendi það í sömu aðstæðum og hann. Við sjáum í splundruðum fjölskyldum, að þeir sem taka málstað þolandans eru gjarnan úthrópaðir líka. Svo er mjög sterkt í okkur að vera hluti af heild. Óttinn við að vera settur út í kuldann er rosalegur. Þá er auðveldara að gera ekki neitt og horfa bara á, jafnvel þótt það þýði að horfa upp á aðra þjást. Auðveldara að loka augunum, fara í afneitun og finna aðrar, þægilegri skýringar, heldur en að stíga fram og viðurkenna að eitthvað hafi verið að; eitthvað þurfi að endurskoða; viðurkenna mistök. Auðvitað koma líka til okkar mál þar sem fólk er hugrakkt; tekur á málum og vinnur með þolanda, en hitt sjáum við gerast allt of oft. Meira að segja hefur fólk sem opnaði kynferðisofbeldi innan fjölskyldu og fékk mjög harkaleg viðbrögð, dregið sögu sína til baka og sagst hafa verið að ljúga, bara til að fá að vera inni í fjölskyldunni áfram.
Við erum félagsverur og þegar við erum lítil, þurfum við á því að halda að tilheyra og það tel ég jafn mikilvægt fyrir börn og að hafa næga fæðu og þak yfir höfuðið. Börn verða að vita að þau séu elskuð, samþykkt og eigi öruggt skjól, en börn sem eru tekin svona fyrir í einelti innan fjölskyldna, fá aldrei þá vissu. Einstaklingar sem alast upp við svona aðstæður eru oft allt sitt líf að reyna að fá viðurkenningu og þá helst frá foreldrunum.
Ef við tökum dæmigerða einræðisherrafjölskyldu, eins og mína, þar sem er einn mjög sterkur einstaklingur sem beitir alla í fjölskyldunni ofbeldi, þá eru allir fjölskyldumeðlimir í þeirri stöðu að lifa af. Jafnvel þó að mamma hafi séð ýmislegt hræðilegt gerast, þá hafði hún ekki bolmagn til að standa gegn honum. Ógnin er svo ofboðsleg og að búa við stöðuga ógn getur dregið kjark og mátt úr besta fólki. Á hinn bóginn er svo auðvelt fyrir þá sem ekki eru í þessum aðstæðum að segja: „Ég hefði nú brugðist svona við,“ – og dæma þá sem ekki gera það.“

Hvernig lýsir sjálft eineltið sér innan fjölskyldu?
,,Oftast er það þannig að annað foreldrið hæðist að barninu, kúgar það og niðurlægir og það hefur augljóslega ekki sömu réttindi og hin börnin. Það býr ekki við sama aðbúnað, fær ekki sömu uppörvun og ekki sömu möguleika á íþróttaiðkun eða tómstundum. Varðandi hið efnislega fær það greinilega ódýrari gjafir en systkini sín. Oft er þetta það lúmskt, að barnið sjálft á gríðarlega erfitt með að greina það. Það einfaldlega upplifir sig síðra og lélegra og telur þetta eðlileg viðbrögð foreldra við því að það sé eitthvað að því sjálfu. Það fer oft að keppast við að standa sig betur til að fá hrós og viðurkenningu frá foreldrunum, en hin systkinin „læra“ og alast upp við, að þetta barn sé lélegra en þau hin. Þannig er búið að gefa veiðileyfi á þetta eina barn og normið í fjölskyldunni verður, að þetta eina barn er lagt í einelti af öllum hinum. Það sem við sjáum síðan oft gerast, er að þetta smitast út í stórfjölskylduna. Svona börn sýna vitanlega afleiðingar og fara kannski að sýna alls konar hegðun, til að fá athygli og viðurkenningu eða til að verja sig. Þarna er þetta barn komið í þá aðstöðu að reyna að lifa af erfiða æsku. Hegðun þess er stundum neikvæð, þannig að þeir sem hófu eineltið, telja sig þar hafa fengið staðfestingu: Auðvitað er eitthvað að krakkanum! Þar með er hægt að segja: Hún hefur alltaf verið skrýtin, eða hann hefur alltaf verið klikkaður. ,,Já, auðvitað fór hann í neyslu; við vissum alltaf að það var eitthvað að honum,“ – þegar barnið er kannski bara að sýna viðbrögð við eineltinu og ofbeldinu. Þetta eina barn, sem jafnvel frá unga aldri hefur verið beitt andlegu ofbeldi og stundum líkamlegu – oft á þann hátt að líkamlegt ofbeldi af hendi hinna systkinanna, er liðið – þetta barn trúir því sjálft, jafnvel fram á fullorðinsár, að eineltið hafi verið vegna þess að það var eitthvað að því sjálfu.
Eftir að þetta smitast út í stórfjölskylduna, verður það viðurkennt viðhorf, að eitthvað sé „að“ þessari einu manneskju. Þá er henni ýtt til hliðar, hún er jafnvel álitin geðveik og nýtur ekki sömu réttinda innan fjölskyldunnar. Ég hef oft séð slíkan einstakling hlunnfarinn og sniðgenginn um réttmætan arf. Vissulega finnst flestum erfitt að fara að láta í sér heyra út af peningum – en þetta snýst ekki um upphæðir, heldur óréttlæti. Líka óréttlætið sem felst í því að vera settur út úr hópnum og allt að því brennimerktur. Fólk sem elst upp við svona aðstæður er allt sitt líf að glíma við allar sígildar afleiðingar ofbeldis: Brotna sjálfsmynd, gríðarlega skömm, mikla sektarkennd, oft mikla reiði, mikla höfnunartilfinningu og ofboðslega sorg. Svo er spurningin hvað maður gerir við sterkar tilfinningar eins og þessa reiði. Hættan er sú að hún fari í eitthvað mjög lítt uppbyggilegt, ef fólk vinnur ekki með hana.“


mbl.is Einelti spyr ekki um stöðu fólks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Þórðarson

Takk fyrir þessa frábæru færslu.

Hörður Þórðarson, 11.6.2012 kl. 07:53

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Vá þvílík leiðsögn inn í einelti. Takk fyrir þessa færslu Þórdís mín.  Hvað þetta er algjörlega ótrúlegt að geti verið , en samt þannig að við vitum að þetta er sannleikanum samkvæmt.  Hvað getum við gert til að bjarga þessum blessuðum einstaklingum sem verða fyrir svona áreitni?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 11.6.2012 kl. 21:01

3 Smámynd: Þórdís Bachmann

Takk Ásthildur og Hörður fyrir innlit.

Hvað getum við gert?

Sem þolandi, byrjað á að fara í viðtal á Drekaslóð, þar sem Thelma skín í hlutverki sínu.

Síðan kannski stofna grasrótarsamtök - þetta er jú soldið "áreitið sem þorir ekki að segja til sín" - skelfilega bælt hjá þolendum og fólk er oft mjög lengi að setja í orð þetta meira dulda áreiti - ekki barsmíðar eða nauðganir, en svipur og tónn og tómlæti. Pillur, sniðgengið, allt svona.

Svo getum við kannski öll æft okkur í að skynja að stundum er fólk að sýna afleiðingar einhvers tráma, þegar við dæmum það sem óalandi.

Eins og Thelma segir: ,,Fara kannski að sýna alls konar hegðun, til að fá athygli og viðurkenningu eða til að verja sig. Þarna er þetta barn komið í þá aðstöðu að reyna að lifa af erfiða æsku. Hegðun þess er stundum neikvæð, þannig að þeir sem hófu eineltið, telja sig þar hafa fengið staðfestingu: Auðvitað er eitthvað að!"

Þórdís Bachmann, 12.6.2012 kl. 16:14

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég hef vissu fyrir því að sumt fólk horfir upp á svona einelti en hefur sig ekki í að gera neitt í málinu.  Svo eru aðrir sem horfa upp á svona eins og ein vinkona mín, hún stoppaði bílinn og fór á staðin og talaði yfir hausamótunum á þeim sem stóðu að ofbeldi á einu barni.  Þeir bara rifu kjaft á móti, en fórnarlambið slapp að minnsta kosi í burtu í það skiptið.  Við verðum að vera öll vakandi fyrir svona og láta til okkar taka þó við þekkjum ekki til fórnarlambanna.  Það er bara hingað og ekki lengra.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.6.2012 kl. 20:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband